Þróunarverkefni í Álfatúni

Þróunarverkefnið snemmtæk íhlutun, mál og læsi hefur verið í vinnslu hjá okkur síðustu ár en það er hluti af stefnu Kópavogsbæjar að allir leikskólar marki sér skýra stefnu hvað varðar þann þátt.  Allt málörvunarefni var flokkað og búnir til skýrir verkferlar um hvernig bregðast skuli við ef talið er þörf á og einnig hvernig skuli styðja við íslenskunám tvítyngdra barna í leikskólanum. Hér má sjá lokaskýrsluna:

Handbók um snemmtæka íhlutun.pdf

Þróunarverkefni um mál og læsi skólaárið 2016-2017
Í aðalnámskrá leik- og grunnskóla (2011) eru samskipti og læsi einn af grunnþáttum menntunar og fléttast inn í allt leikskólastarf. Þá er er einnig í gangi þjóðarsáttmáli um eflingu læsis. Hjá Kópavogsbæ hefur verið blásið til sóknar í læsismálum leik- og grunnskólabarna og síðla hausts 2016 var samþykkt læsisstefna fyrir skólastigin tvö. Skólaárið 2016 – 2017 var unnið að sameiginlegu þróunarstarfi allra leik- og grunnskóla og nefnist verkefnið okkar í Álfatúni: Leikandi læsi.
 Í leikskólanum sér þessa nú víða stað: bókasafnið hefur fengið nýjan og sýnilegri stað uppi á efstu hæð, bækur notaðar sem aldrei fyrr og  mikil áhersla var lögð á sýnileika ritmáls í öllu umhverfi. Vísur, þulur, ljóð, sögugerð og söngur var haft í hávegum og hvatt er til samræðna og spjalls í öllum aðstæðum. Unnið með skuggaleikhús og leikræn tjáning þjálfuð með uppfærslu leiksýninga. Börnin voru mjög áhugasöm og virk í öllu starfinu sem hvatti starfsfólkið áfram í verkefninu. Verkefnastjóri með læsisverkefninu í Álfatúni var Jana Pind, leikskólakennari.

Lokaskýrslu um þróunarverkefnið má skoða með því að smella hér.

 

Þróunarverkefni um bætta þjónustu við börn með ADHD

Sameiginlegt þróunarverkefni Menntasviðs Kópavogsbæjar um bætta þjónustu við börn með ADHD skólaárið 2011-2012
 Leikskólinn Álfatún var skólaárið 2011-2012 þátttakandi sameiginlegu þróunarverkefni Menntasviðs Kópavogsbæjar um bætta þjónustu við börn með ADHD.  Markmiðið með verkefninu er að auka fræðslu starfsfólks leik- og grunnskóla um málefni barna með ADHD og að ná fram markvissari teymisvinnu og eftirfylgd þessara barna milli skólastiganna.

Í þróunarverkefninu er áherslan á góða samvinnu starfsmanna, foreldra og verkefnastjóra, en fundir eru reglulega þar sem farið er yfir áhersluatriði í vinnu með barnið.  Einnig hefur starfsfólk fengið fyrirlestra um efnið.  Komið hefur verið á samstarfi milli leikskólans og grunnskóla til að tryggja samfellu milli skólastiga.

 Skýrsla verður samin í lok skólaárs um framkvæmd og niðurstöður þróunarverkefnisins og munu þær verða settar hér inn á síðuna þegar skýrslan liggur fyrir.

 

Sjálfbærni og vísindi - þróunarverkefni leikskóla Kópavogs

Á skólaárinu 2014 – 2015 unnu leikskólar í Kópavogi að sameiginlegu þróunarverkefni undir yfirskriftinni Sjálfbærni og vísindi.


 Markmið verkefnis var:

- að auka áhuga og skilning leikskólabarna á sjálfbærni, í hverju hún felst og hvernig þau geti átt þátt í eða haft áhrif á að bæta það umhverfi sem þau búa í.

- að efla forvitni og áhuga á töfraheimi vísindanna og því sem leynist í eiginleikum ýmissa efna og hluta.

- að auka hæfni og þekkingu starfsmanna á viðfangsefninu og styrkja þá í starfi sínu með börnunum.

Hver leikskóli fyrir sig ákvað hvaða verkefni hann ætlar að leggja áherslu á og einn verkefnastjóri var í hverjum leikskóla sem hélt utan um verkefnið og bar ábyrgð á vinnslu þess. Auk þess mótaði verkefnastjóri framgang verkefnis í samvinnu við annað starfsfólk leikskólans.

 Verkefnastjóri þróunarverkefnisins hér í Álfatúni var Ólöf Svava Guðmundsdóttir leikskólakennari og sérgreinastjóri lista.

 Við hvetjum ykkur til að smella hér til að kynna ykkur lokaskýrslu Álfatúns sem bar heitið Dalurinn okkar