Foreldrar

Við upphaf leikskólagöngu er mikilvægt að strax myndist góð tengsl á milli leikskóla og heimilis. Gagnkvæm virðing milli foreldra og leikskóla er grundvöllur þess að barninu líði vel og að það fái notið sín. Foreldrar eru fyrstu kennarar barnanna og það er hlutverk leikskólakennara að koma á góðum samskiptum við foreldra þannig að gott samstarf sé um velferð barnsins. Allir foreldrar eiga það sameiginlegt að vilja börnunum sínum allt það besta.


Að byrja á leikskóla

Þegar barnið þitt byrjar í leikskóla er mjög mikilvægt að til þess sé stofnað af alúð, öryggi og festu.  Barnið þitt kynnist nýjum fullorðnum einstaklingum sem annast allar þarfir þess í daglegu starfi leikskólans.  Það kynnist einnig hópi annarra barna í leikskólanum.  Það er þýðingarmikið að barnið geti treyst á fullorðna fólkið í leikskólanum og leyfi því að annast um sig í dagsins önn.  Hlutverk foreldranna er að styðja barnið í aðlögunarferlinu, vera því hvatning og uppörvun í skólastarfinu.  Það er ekki síður mikilvægt að foreldarnir geti treyst starfsfólki fyrir barninu.  Um leið og barnið upplifir traust foreldra sinna í garð leikskólans, yfirfærir það traust sitt á leikskólann.

Alla jafna er einn tiltekinn starfsmaður sem annast aðlögun barnsins.  Hann tekur á móti barninu og gefur sér góðan tíma að kynnast því.  Hann sýnir barninu umhverfið og efniviðinn í leikskólanum og leiðir það inn í leikskólastarfið.


Gagnkvæm upplýsingamiðlun

Við upphaf leikskóladvalar fer fram gagnkvæm upplýsingamiðlun.  Foreldrum eru kynntar starfsreglur leikskólans og þeir veita leikskólakennurum upplýsingar um barnið.  Foreldrar og leikskólastjóri gera með sér vistunarsamning þar sem tiltekinn er dvalartími barnsins.  Þá er mikilvægt að ávallt liggi réttar upplýsingar fyrir í leikskólanum um hagi barnsins heima.  Breyttar aðstæður hjá foreldrum og barni, s.s. breyttur vinnustaður eða nýtt heimilisfang eða símanúmer, þarf að tilkynna til leikskólans strax.

Gerð er áætlun í upphafi leikskóladvalar um aðlögun barnsins.  Foreldrar þurfa að gera ráð fyrir fimm dögum til aðlögunar.  Foreldrar gefa leikskólanum upplýsingar um hverjir aðrir megi sækja barnið í skólann.  Slíkum upplýsingum þarf að skila til deildarstjóra og þarf að gefa upp fullt nafn og símanúmer hjá viðkomandi aðila.