Sérkennsla í leikskólanum Álfatúni

Þó að öll börn eigi meira sameiginlegt en það sem aðgreinir þau, þá eru þau samt sem áður í eðli sínu ólík og hafa misjafnar þarfir.  Í barnahópnum hverju sinni geta verið langveik börn, börn með fötlun, börn sem eiga við tjáskiptaörðugleika að etja, börn sem eiga við félagslega-  eða tilfinningalega erfiðleika að etja  og einnig eru í leikskólanum börn frá ólíkum menningarheimum sem eru tvítyngd og jafnvel í sumum tilfellum fjöltyngd.

Innan leikskólans á hverju barni að vera tryggðar aðstæður til náms og þroska samkvæmt íslenskum lögum. Í þessu felst að leikskólanum er ætlað að jafna uppeldis- og námsstöðu allra barna og er það gert  með sérkennslu.  Sérkennsla er því viðbótarúrræði handa þeim einstaklingum sem vegna aðstæðna sinna þurfa sérhæfðar leiðir til að þroskast og læra í samfélagi við önnur börn í skólanum.   Sérkennsla fer alla jafna fram í hópnum með öðrum börnum.

Sérkennslustjóri hefur yfirumsjón með gerð verkefna og ber ábyrgð á gerð einstaklingsnámskrár fyrir börn sem njóta sérkennslu. En einnig að áherslum um kennslu annarra sérfræðinga sé framfylgt í skólanum og að skýrslur séu gerðar. 

Sérkennslustjóri vinnur einnig náið með sérkennsluráðgjöfum leikskólaskrifstofu, sem og sálfræðingi, iðjuþjálfa og talmeinafræðingi sem tengjast leikskólanum vegna barna sem njóta sérkennslu.

Ef grunur vaknar um þroskafrávik

Ef grunur vaknar hjá kennurum um að barn víki frá í þroska á einhverju sviði ber þeim lögum samkvæmt að hlutast til um málið. Þetta á einnig við ef kennari telur að félagslegar aðstæður barns hamli að einhverju leyti þroskamöguleikum þess.

Mikilvægt er að markviss íhlutun hefjist strax og grunur vaknar, ekki sé beðið staðfestingar á þroskafráviki.

Leikskólinn getur kallað eftir þjónustu sérfræðinga, talmeinafræðings, iðjuþjálfa og sálfræðings sem starfa hjá Kópavogsbæ. Viðkomandi sérfræðingur gerir þá formlega athugun á þroska barnsins með viðeigandi þroskaprófi eða matstæki. Slíkt mat getur farið fram með þátttöku foreldra.

Vert er að taka það  fram að foreldrar geta alltaf leitað til deildarstjóra eða sérkennslustjóra ef að þeir hafa einhverjar spurningar varðandi þroska og hegðun barna sinna.

Framkvæmd sérkennslu

 Í Álfatúni er unnið samkvæmt einstaklingsnámskrá barna og áhersla lögð á að þau verði fullgildir meðlimir í leikskólasamfélaginu og að allir kennarar séu virkir þátttakendur í námi þess.

Sérkennsla getur verið:

  • Aðstoð eða umönnun sem barnið þarf umfram önnur börn til að geta tekið þátt í leikskólastarfinu.
  • Til að örva ákveðna þroskaþætti hjá barninu.
  • Fjölgun starfsfólks til að aðlaga leikskólastarfið, til dæmis að fækka börnum í hópstundum, svo barnið eigi auðveldar með að tileinka sér þá kennslu sem fram fer.
  • Sérstök vinna starfsfólks með barnahópinn þar sem unnið er með viðhorf barnanna, samskipti og tengsl.