Læsi er einn af grunnþáttum menntunar og á að flettast inn í allt starf leikskólans.
Starfshættir eiga að stuðla að fjölbreyttu og hvetjandi umhverfi sem eflir áhuga barnanna á læsi.
Nota skal fjölbreyttar og skapandi kennsluaðferðir sem stuðla að jákvæðu viðhorfi til læsis, auka færni og gefa börnum færi á að tjá sig á margvíslegan hátt. Nýta skal hvert tækifæri til að spjalla saman, t.d. í leik, við matarborðið, í fataherbergi og við skiptiborðið, setja orð á alla hluti og athafnir.
Lesa á hverjum degi, nota samræðulestur og vera í litlum hópum.
Læsi snýst þó ekki einungis um að geta lesið heldur felur það í sér að geta skynjað, skilið, túlkað, gagnrýnt og miðlað texta eða táknum í víðum skilningi. Hvort sem það er ritmál, myndmál, talmál, tölur eða önnur kerfi tákna.
Hæfileikinn til að geta lesið og skilið byggir á mörgum þáttum sem byrja að þróast á leikskólaaldri eins og hljóðkerfis – og hljóðvitund, lesfimi, lesskilningi, hljóðrænni umskráningu og orðaforða.
Leikur er aðalnámsleið barna á leikskólastigi og því þarf leikumhverfi barnanna að styðja við alla þessa þætti.
Hægt er að kynna sér læsisstefnu Álfatúns nánar með því að smella hér
Efni um málþroska
Við vekjum athygli á hópnum Babbl og spjall - Málþroski barna 0 - 3ja ára á Facebook en markmið þessa hóps er að koma á framfæri þekkingu og upplýsingum um mikilvægi málþroska ungra barna. Á bakvið hópinn standa talmeinafræðingar.
Tungumál er gjöf er nýr vefur sem við mælum með. Öll börn þurfa að læra tungumál og sum börn þurfa að læra fleiri en eitt tungumál strax á unga aldri. Tungumál er gjöf er vefur fyrir leikskóla þar sem markmiðið er að efla mál og læsi barna sem læra íslensku sem annað mál, í samvinnu við foreldra.
Og þó að vefurinn sé ætlaður foreldrum barna sem læra íslensku sem annað mál þá nýtast hugmyndirnar þar öllum börnum. Við bendum sérstaklega á hlekkinn málörvun heima.
Hægt er að nálgast bæklinga sem skóla og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur gefið út um málþroska barna og lesskilning í samstarfi við Árósarborg hér
Á síðunni Lærum og leikum með hljóðin svarar Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur nokkrum algengum spurningum sem vakna hjá foreldrum varðandi málþroska barna og frávik í honum. Smellið hér til að lesa spurningar og svör um efnið.